Elba

Þá er ég komin aftur heim frá Elbu. Smile

Ég fór síðasta fimmtudag með Söndru, Isabelle, Enrico, Livia og Irene. Irene er ein ítölsk stelpa sem er með einum erasmus í tíma, man ekki alveg hverjum.

elbaÁ miðvikudaginn fórum við Isabelle og Irene saman að kaupa tjald fyrir ferðina og varð fallegt fjögurra manna tjald fyrir valinu ásamt þriggja manna tjaldi sem Irene keypti sér. Ferðin hófst á fimmtudagsmorgun klukkan átta með lest til Livorno. Þar skiptum við um lest og fórum til Piombino þar sem við fórum með skipi til Elbu. Veðrið var heldur leiðinlegt en við vonuðumst til að sólin myndi láta sjá sig seinni partinn þegar við kæmust loks til Elbu. Nei nei þegar við stigum út úr rútunni, sem fór með okkur á tjaldstæðið á Elbu, byrjaði að rigna, og það ekkert smá, líkt og væri virkilega hellt úr fötu. Þegar stytti upp í smá tíma byrjuðum við að tjalda en eftir fimm mínútur byrjaði aftur að rigna og allt varð rennandi blautt og ógeðslegt. Ég tók alls ekki mikil föt með mér og allt sem ég tók með mér varð blautt. Ég hélt að þegar maður tjaldar á Ítalíu í byrjun júní þá ætti að vera sól! Þetta var verra en að tjalda á Íslandi hehe.  En allaveganna um níu leytið um kvöldið þegar við vorum búin að tjalda fórum við á pizzastað. Alveg að kálast út hungri eftir miklu lengra ferðalag en við bjuggumst við. Við litum líka öll rosalega vel út með blautt hárið og klædd í blaut föt. Mér var svo kalt að ég fór inn á baðherbergi til að hlýja mér við handþurrkarann.


 

 

 

 

 

Á föstudeginum vöknuðum við öll heldur stúrin þar sem lítið var um svefn um nóttina. Það rigndi og rigndi og hávaðinn af rokinu var óþolandi. Við höfðum líka tjaldað í svo miklum flýti að stærðarinnar steinn varð undir plássinu hennar Isabelle svo hún var ekki mjög ánægð. En á laugardeginum lét sólin sem betur fer sýna sig. Um morguninn var himininn heiðskír en við ákváðum að byrja daginn með því að skoða m.a. Porto Azzurro (við gistum í Marina di Campo). Planið var að fara síðan seinni partinn á ströndina og sleikja sólina. En seinni partinn dró fyrir sólu og við blótuðum því að hafa ekki byrjað daginn á ströndinni í stað fyrir rútuferð. Um þetta leyti var eitt mosqiuto bit bak við hnéið mitt heldur betur farið að láta á sér kræla og löppin á mér bólgnaði svo mikið að ég átti í erfiðleikum með að ganga. Ég fór því í apótek með Liviu og fékk eitthvað við því.  

Um kvöldið fórum við aftur á sama pizzaastaðinn (ekki mikið um að velja á þeim stað sem við vorum) og fengum okkur pizzu sem við borðuðum á ströndinni. Mórallinn hjá öllum um daginn hafði verið upp og ofan en eftir smá pizzu og bjór vorum við öll að koma til. Ég, Isabelle og Sandra stóðum saman í hring á ströndinni og vorum að tala saman og grínast. Svo allt í einu segir einhver e-ð fyndið svo að Sandra byrjar að hlægja. Hún slengir hausnum svona niður eins og maður gerir stundum þegar maður hlær, en það vildi svo illa til að hún lendir akkurat með munninn á bjórflöskunni sem ég var með í hendinni. Flaskan titraði en greyðið Sandra braut í sér tönn. Eftir þetta var gamanið eiginlega búið og við héldum aftur heim á tjaldstæðið staðráðin í því að eyða morgundeginum í afslöppun á fallegri strönd.
Ströndin sem við fórum á
laugardeginum heitir Biodola og var sagt að hún væri rosalega falleg svo við ákváðum að taka rútuna þangað um morguninn. Livia hélt þó ein heim á leið til Genova. Rútan fór með okkur til Procchio og sagði rútubílstjórinn að ströndin væri mjög stutt frá, rétt handan við hlíðina. Við byrjuðum því að ganga, og ganga, og ganga og ganga þangað til að við vissum varla hvar við vorum. Þessi hlíð var rosa brött og ég myndi meira kalla þetta fjall svona eftir á. Irene gekk svo hægt að við þurftum endalaust að vera að stoppa, hún talaði líka stanslaust allan tíman svo að ég, og fleiri, var að verða geðveik. Það vall og vall út úr þessu ógeðisbiti við hnéið á mér og sólin var svo heit og ég óskaði þess heitt að við myndum brátt finna ströndina. Sandra átti í erfiðleikum með að drekka vegna verk í tönninni og Isabelle með verk í baki eftir nóttina svo ég get ekki sagt að þessi göngutúr hafi verið svakalega skemmtilegur en eftir um þrjá tíma komumst við loks á áfangastað. Úff já þrjá tíma, alveg fáránlegt. Komumst um að verða tvö á ströndina og það var alveg satt að þessi strönd er rosalega falleg. Við gátum loks slappað af og farið í sólbað. Fórum einnig í smá boltaleik í hafinu og fengum okkur öl á strandbarnum. Allir voru í rosa góðu skapi þar til að við fengum skilaboð um það að lestir og rútur yrðu í verkfalli á sunnudeginum.

Sandra komst sérstaklega í uppnám þar sem hún átti að fara í próf á þriðjudeginum og planið var að leggja snemma af stað á sunnudeginum til þess að hún gæti byrjað að læra. Við reyndum því að komast að því hvernig við gætum komist heim og spurðum um leið hvaða strætó við gætum tekið frá Biodola, þar sem við vorum, til Marina di Campo og komust að því að það eru engir strætóar sem ganga að Biodola fyrr en fyrsta júlí. Við þurfum því að ganga aftur heillanga leið til þess að geta tekið strætó til baka jibbíjei. Sem sagt rosa mikil ganga þann daginn. Um kvöldið komust við að því að hægt væri að taka eina lest sem færi um kvöldið á sunnudeginum, þessi lest kostaði samt meira en venjulega, gaman, gaman.
Á sunnudeginum lékum við okkur smá með bolta á meðan Sandra reyndi að læra. Svo hófum við ferðina heim á leið seinni partinn.
Ég varð líka heldur svekkt að komast ekki fyrr heim þar sem ég var búin að plana að fara á tónleika með fullt af hljómsveitum frá Genova um kvöldið en svona er víst lífið.  
Komust heim, nokkuð þreytt, klukkan að ganga tólf í gærkvöldi og í dag er ég búin að eyða stórum hluta dagsins í að þrífa allt eftir ferðina þar sem rigningin gerði þar að verkum að allt varð frekar skítugt.
          Elba er rosalega falleg eyja, mjög græn og stendurnar eru æðislegar með bláu hafi og hvítum sandi. Ég get samt ekki sagt að ferðið hafi verið frábær en ég held að þetta sé ein af þeim ferðum sem er mun skemmtilegra að rifja upp seinna hehe.

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa ferðasöguna. Mér finnst þú vera svo breytt e-ð á myndunum.

Ég hlakka rosa til þegar þú kemur heim! :)

Bk,

veiku mæðgurnar :(

Krúsa og co. (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 11:56

2 identicon

hæ hæ vá hvað þú ert búin að vera dugleg að ferðast njóttu þess áfram.

kv.Þóra sem er að fara til köben á morgun :=)

Þóra Kristín (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 10:56

3 identicon

hahahahahhaah þetta hefur verið svaka skemmtileg ferð :) einmitt ferð sem á eftir að standa uppúr og skemmtilegt að rifja upp :) hehheheh  
Hafðu það gott knús og kossar frá mér

Sessý (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband