Jæja þá er ég komin aftur frá Bologna.
Við fórum sjö saman á laugardagsmorgun, ég, Sandra, Isabelle, Niko, Mikko, Jonas og Enrico. Ég vaknaði klukkan um korter yfir fjögur á laugardagsmorgun því að lestin til Bologna fór klukkan rétt fyrir sex. Kvöldið áður var afmælið hennar Nönu svo að ég fór ekkert rosalega snemma að sofa, svaf heila þrjá tíma. Ferðin til Bologna tók þrjá og hálfan tíma og vorum við því komin rétt fyrir klukkan tíu. Eftir að hafa hent dótinu inn á hostelið fórum við að skoða okkur um í Bologna.
Fyrst fórum við að skoða turnana tvo sem eru á Piazza di Porta Ravegnana. Turnarnir eru eins konar tákn fyrir Bologna frá miðöldum. Við ákváðum að fara upp annan turnin og völdum þann hærri að sjálfsögðu, sá er 97 metra hár með 498 þrep. Stigarnir voru alveg rosalega grannir og ég var svolítið lofthrædd, sérstaklega þegar ég þurfti að labba niður því þá þurfti ég að horfa niður. Þrepin virtust endalaus en að lokum komumst við á toppinn og útsýnið var alveg æðislegt!
Eftir þessa góðu líkamsrækt ákváðum við að fara í almenningsgarð með bjór og slappa af. Eftir aðeins einn bjór á mann virtust allir vera nokkuð hífaðir sem er kannski ekki skrítið þar sem lítið var um svefn nóttina áður. Um kvöldið fórum við öll saman út að borða og samræðurnar við matarborðið voru vægast sagt skrautlegar. Allir pöntuðu sér Spaghetti Bolognese því að: when in Rome right....hehe. Svo eftir matinn fórum settumst við úti á torg og drukkum bjór, svaka kósí. Fórum svo á mjög skemmtilegan írskan pöbb, þar var alveg fullt af fólki. Það eru svakalega margir stúdentar í Bologna, virðist vera miklu fleiri en í Genova og við byrjuðum að ræða það hvort við hefðum ef til vill valið vitlausa erasmusborg hummhumm. Eftir írska pöbbinn fórum við á annan skemmtistað þar sem við dönsuðum og dönsuðum til klukkan fjögur um nóttina. Veit ekki alveg á hvaða orku en ég lærði þessa nótt að það er mögulegt að dansa nánast sofandi hehe.
Hostelið sem við gistum á var frekar ódýrt og þess vegna er það eflaust lokað á milli tvö til sex á næturnar. Við þurftum því að bíða fyrir utan hostelið í rúman klukkutíma til þess að komast inn að sofa, og vá hvað við vorum þreytt. Enginn gat sagt neitt gáfulegt en það gerði biðina líka skemmtilegri. Þetta kvöld var rosalega skemmtilegt, ég hef sjaldan hlegið jafn mikið! Á sunnudeginum vöknuðum við um hálf tólf og tókum lest til Ferrara, borg nærri Bologna. Ferrara er rosa sæt borg þar sem allir eru á hjólum.
Um kvöldið fengum við okkur bjór saman á enskum pöbb og fundum upp nýtt tungumál frá Genítalíu sem við töluðum allt kvöldið. Kannski er eins gott að við séum að læra í Genova því við höfum ef til vill hljómað svolítið asnalega hehe.Á mánudeginum skoðuðum við Bologna aðeins meira og meðal annars elsta háskóla Evrópu sem er staðsettur þar. Í háskólanum fann ég meira að segja til sýnis íslenska bók.
Alla ferðina vorum við rosalega heppin með veður, það var sól allan tímann. Síðan þegar við komum aftur heim til Genova var rigning!! En veðrið er að batna núna, mér sýnist sólin vera að sýna sig. Í kvöld ætlum við að kíkja í bíó og núna verð ég að fara að hafa mig til því fyrir bíóið ætlum við að hittast og fá okkur smá apperitivo. :P Vona að allt sé gott að frétta frá klakanum knúsknús.
P.s. gleymdi að nefna það að ég þarf víst að fá mér enn á ný nýtt debitkort, því á föstudeginum fór ég í hraðbanka og bankinn hreinlega át kortið mitt. Ég setti kortið inn og svo stóð, vinsamlegast bíðið. Svo ég beið, og beið og beið, þangað til að allt í einu birtist á skjánum: því miður þá er þessi hraðbanki nú bilaður!! Ég reyndi að ýta á cancel en ekkert gerðist og kortið inn í helv... bankanum. En jæja ég ákvað bara að halda ró minni og fara eftir helgina að ná í kortið. Svo fór ég í dag í bankann en viti menn, bankinn ákvað bara að senda kortið mitt til Íslands, úff! Svo ég þarf að fá enn nýtt kort sent hingað til Ítalíu. Ég veit ekki alveg hvað þetta er með mig en ég virðist vera svolítið óheppin með kortin mín hérna úti, vonandi er þetta síðasta vesenið. Góðar stundir :p.
Bloggar | 29.4.2008 | 23:05 (breytt 30.4.2008 kl. 12:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja þá er ég loksins byrjuð að læra. Ég hef frestað því að byrja allt of lengi. Í dag er ég búin að lesa alveg fullt í ítölskum bókmenntum og er ekki enn búin. Ætla að halda áfram um leið að ég er búin að blogga smá. Það má nú alveg taka bloggpásu er það ekki.
Ég veit ekki hvernig ég ætla að ná prófunum í vor/sumar en ég ætla nú samt að reyna mitt besta. Ég fer í þrjú próf og þau eru öll munnleg. Ég er rosalega stessuð því að ég er alls ekki vön því að taka munnleg próf og hvað þá á öðru tungumáli. Ég ætla bara að vona að þessi próf fari betur heldur en síðasta munnlega próf sem ég man eftir að hafa farið í. Það var í stærðfræði í MR. Það er dagur sem er best gleymdur held ég. Ég var svo stressuð að ég hélt að það myndi líða yfir mig, svo mundi ég bara alls ekki neitt og stóð þarna bara eins og einhver auli sem væri að villast inn í vitlausa skólastofu. En ég er núna eldri og klárari, vona ég hehe. Nei nei ég er viss um að í þetta skipti gangi þetta betur, hver veit nema ég sé bara natural talent í munnlegum prófum á ítölsku.
Í gær fór ég smá út á lífið með vinum mínum hér. Ég bauð nokkrum fyrst heim til mín í smá bjór, snakk og ávexti. Mér var reyndar sagt þegar ég flutti inn að eina reglan væri að ég mætti ekki halda partý en þetta var nú bara smá smá, engin heví læti eða neitt svo það hlýtur að vera í lagi. Stelpan sem býr með mér er mjög sjaldan heima um helgar og ég reyndar hitti hana ekki mjög oft ef ég verð að segja eins og er. Stundum þegar ég kem heim og hún er heima þá bregður mér því það er oftast eins og ég búi hérna ein hehe. En já það var alveg ágætiskvöld í gær bara. Við fórum á stað sem heitir Moretti, eins og bjórinn ítalski. Frekar subbulegur staður en gaman að dansa þar. Tónlistin sem er spiluð er pínu svona suður amerísk svo það er eins og maður sé komin til Kúbu eða eitthvað. Allir í svaka stuði.
Næstu helgi eru tónleikar með The Wombats í Flórens og mig langar alveg rosa mikið að fara. The Wombats eru t.d. með lagið Lets dance to Joy division, fyrir þá sem vilja vita. En ég veit ekki hvort ég fari, enn svolítið óákveðið. Svo helgina 25.-27. apríl fer ég til Bologna, Ferrara og Ravenna með Erasmus félaginu hér í Genova. Ég get ekki beðið, held að það verði rosa gaman.
Í gær var síðasti dagurinn í ítölsku tímunum og við gáfum kennaranum blóm og kort til þess að þakka fyrir okkur. Kennarinn er mjög indæl ung kona. Hún var svo hrærð þegar við gáfum henni þetta að hún fór næstum því að gráta. Algjör dúlla. Sagði endalaust að við værum svo skemmtilegur bekkur og svo eftir tímann bauð hún okkur öllum upp á Aperitivo.
En jæja já best að halda áfram að læra, heyri líka að þvottavélin er búin svo ég verð að fara að hengja upp. Vonandi áttuð þið öll góða helgi og ég óska ykkur öllum góðrar viku og til hamingju með afmælið Krúsa!
Bloggar | 6.4.2008 | 15:09 (breytt kl. 15:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)