Sirkus og fleira

SirkusÍ gærkvöldi fór ég í fyrsta skipti á ævinni í sirkus. Það voru alveg fullt af litlum krökkum en að var mjög viðeigandi því mér leið svolítið eins og krakka líka. Riccardo og Lucia (bróðir Fabio og kærasta hans) buðu mér.  Það var margt skemmtilegt að sjá en það sem mér fannst magnaðast var þegar fimm lítil mótorhjól keyrðu um í lítilli kúlu allir á sama tíma. Það var alveg svakalegt. Svo voru líka púddluhundar og svona poný poný dverghestar, alveg ógeðslega sætir, sem gerðu alls konar kúnstir saman. Það var mjög flott líka.  Mjög skemmtileg fyrsta reynsla af sirkus. :)

Enn eru margir erasmus nemar húsnæðislausir líkt og ég. Ég er þó svo heppin að þurfa ekki að borga fyrir gistingu á hosteli. Fimm erasmus strákar ákváðu að leigja húsnæði á vegum SASS, skemmtilega skrifstofan fyrir útlendinga, í Pegli. Pegli er aðeins lengra í burtu frá miðbæ Genova en Multedo þar sem ég er nú (fyrir mig tekur um 40 mínútur í bæinn með strætó). Þessir gaurar eru Eduardo frá Spáni, Jonas frá Svíþjóð, Miku og Niku frá Finnlandi og úps ég man ekki alveg frá Þýskalandi. Í fyrradag fór ég með þeim ásamt Isabelle frá Spáni að skrifa undir samninginn fyrir íbúðina. Þá var þeim sagt að fyrri leigendur hefðu ekki borgað rafmagnsreikninginn og því yrðu þeir líklega rafmagnslausir í viku. Og vegna þess að það er ekkert rafmagn þá er heldur ekkert heitt vatn.......úps æi greyin. Veit ekki hvort það komi málinu við en okkur var sagt að fyrri leigendur hefðu verið vændiskonur......og ég sem hélt að Pegli væri svo saklaus staður, en ætli þær séu ekki í hverjum bæ. Þegar við komum út af skrifstofunni talaði Miku eða Niku við mig (man aldrei hvor er hvað) og sagði að hann væri ekki svo viss um íbúðarvalið :/ svo ég reyndi eftir bestu getu að hughreysta hann og minnti hann einnig á að skipta á rúmfötunum haha :P.

Í kvöld er ég að fara á fyrsta official erasmus partýið. Eða allaveganna er einn staður sem auglýsir ódýran bjór í kvöld fyrir erasmusa. Vonum að það verði fjör.

Á mánudaginn fer ég svo að skoða íbúð í miðbænum. Þar býr ein 26 ára ítölsk stelpa, ég vona að ég fái þá íbúð (herbergi í íbúð). Ég fór á miðvikudaginn að skoða aðra íbúð (herbergi í íbúð) en mér leist ekki á hana....hún var svolítið of skítug fyrir minn smekk, kannski er ég of mikil pempía en ef það er ekki hreint þá get ég ekki sofið :/. 

Annars allt gott :)  Kíkið á hjólin í kúlunni! (þ.e.a.s. ef ég næ að upphlaða því).


Já ítalir virðast elska pappíra

Ok þá er ég búin að vera hér í Genova í viku og það gengur allt bara vel, myndi kannski ekki segja eins og í sögu en já gengur skemmtilega. 

Ég er loks búin að ná því að innrita mig í háskólann og það var sko meira en að segja það. Ég þurfti að fara þrisvar sinnum bara til þess að skrá mig í skólann. Þrjá mismunandi daga!!! Skil ekki þessa opnunartíma. Anyway fyrst á föstudag til að fá eitt blað. Svo á mánudag til að gefa það blað og fá annað í staðinn. Svo á þriðjudag til þess að gefa það blað og fá einhverja einkunnabók og kort í staðinn. Veit eiginlega ekki alveg enn hvað þetta þýðir allt saman fyrir mig en held að það sé bara best að gera það sem mér er sagt, þegar ég skil það sem sagt er þ.e.a.s. hehe. En sum sé nú get ég farið að einbeita mér að finna kennara sem leyfa mér að taka námskeiðin sín. En vegna þess að hér á Ítalíu er ekki mjög algengt að fólk tali ensku þá þarf ég að velja sérstakalega fög þar sem kennarinn kann ensku. Veit ekki enn hvaða fög það eru en nei nei nei ég er ekkert stressuð....:/

Ég er búin að kynnast nokkrum erasmus nemum og líkar, enn sem komið er, við alla. Fyrst hitti ég þrjá stráka, einn er danskur og tveir frá Tyrklandi. Þeir eru allir mjög fyndnir, enginn af þeim kann orð í ítölsku fyrir utan sí og no og annar tyrkinn kann heldur varla stakt orð í ensku :/. Tyrkirnir eru samt mjög bjartsýnir og ætla að taka SJÖ FÖG Á ÍTÖLSKU. Skil ekki alveg hvernig þeir ætla að fara að þessu, og ég sem var að stressa mig á minni litlu ítölsku og þrem fögum. Danski Jesper mjög laid back kannski svona eins og danir eru oft. Hann er ekki mikið að stressa sig á skólanum eða hvaða fög hann ætlar að taka. Hann talaði um að kannski tæki hann svona eitt ef hann nennti. Ég held að hann sé meira bara svona að tjekka á því hvernig bjórinn bragðast á Ítalíu. 

Síðan er norskur strákur Knud, tveir finnskir strákar Niku og Miku......og nei ég er ekki að grínast hahaha. Spænskur strákur, pólskt par og tveir sænskir strákar.

Ég fór með þeim öllum á skrifstofu sem kallast SASS. Þessi skrifstofa er fyrir útlendinga og sér um allt svona sem snýr að dvalarleyfi og svoleiðis. Einnig segjast þau hjálpa útlenskum nemendum að finna húsnæði. Þessi skrifstofa er ekkert smá fyndin eða réttara sagt konan sem vinnur þarna er "fyndin". Hún talaði yfir fullt herbergi af útlendingum alveg rosalega hratt og allt á ítölsku. Svo þegar pólski gaurinn sagðist ekki skilja bölvaði hún bara honum á ítölsku og hélt áfram. Ég hefði sprungið úr hlátri, því þetta var svo fáránlegt, ef ég hefði ekki verið svona skíthrædd við hana.

Ég skildi mest af því sem hún sagði samt, allaveganna nóg til að skilja að það væru engar íbúðir að hafa fyrir okkur, hjá þeim. Danski strákurinn var þegar búinn að finna íbúð en kom samt með okkur á skrifstofuna. Þegar ítalska konan sá að hann var ekki að hlusta (sem reyndar átti við um marga því það var svo erfitt að skilja) spurði hún hann hvað hann væri að gera þarna. Þegar hann loks skildi hvað hún var að segja sagði hann: oh me,  I'm just waiting for the turkish guys.......og ég get svo svarið það, konan eiginlega bara flippaði og rak hann út, bókstaflega bannaði honum að vera þarna. Þegar við vorum svo að fara kom einn gaur sem er að vinna þarna og afsakaði samstarfskonu sína því hún væri nefnilega að reyna að hætta að reykja.....hahaha :P

En mjög skemmtilegt og viðburðaríkt í Genova. Kossar og knús a tutti :)

 

 


Komin til Genova

Þá er ég komin til Genova.

Flugið gekk bara vel, frekar lítil flugvél, myair heitir flugfélagið. Ég lenti við hliðina á ítölskum manni sem talaði mjög mikið um skó. Hann er að vinna fyrir skófyrirtæki og var að koma frá París þar sem hann gekk á milli skóbúða og talaði við skóbúðareigendur um skóna sína og þeirra skó og blablabla. Fínasti kall bara, en ég hefði kannski valið annað umræðuefni. Hann talaði einnig mikið um það hvað það væri leiðinlegt að ferðast með nískum yfirmanni sínum en virtist ekki hafa minnstar áhyggjur af því að sá hinn sami yfirmaður sat hinum meginn við hann. Sem betur fer var flugið frá París aðeins klukkutími og tíu mínútur.

Í morgun fór ég upp í háskóla og beið mjög lengi áður en ég fattaði að ég var á vitlausum stað að bíða. Ég átti víst að fara einni hæð ofar. En allaveganna gekk þetta næstum því að lokum. Á mánudaginn þarf ég að fara aftur á sama stað til þess að láta einhvern fá þá pappíra sem ég fékk í morgun. En í dag þegar ég loks fékk þessa pappíra var búið að loka skrifstofunni sem tekur á móti þeim, en það var um hádegi. Nota bene þessar tvær skrifstofur eru á sama staðnum, bara á mismunandi hæð. Vitlausi staðurinn fyrr um morguninn var sem sé ekki svo vitlaus eftir allt saman. Skil ekki alveg af hverju skrifstofan sem gaf mér pappírana í morgun lætur ekki bara hina skrifstofuna fá pappírana beint.....allt mjög skondið samt hehe.


París

Jæja þá er Erasmus tíminn minn byrjaður, byrjaði með því að kíkja smá til Parísar. Lenti um 12:15 á staðartíma, 30. janúar, var eiginlega ekki búin að sofa neitt um nóttina svo ég dreif mig upp á hótel (Novotel) og lagði mig smá.

Þegar ég vaknaði fór ég niður í móttökuna til þess að athuga hvar best væri að fara úr lestinni til þess að skoða mig um í miðbæ Parísar. Móttökudaman var ekkert rosalega spennt yfir því að hjálpa mér og muldraði e-ð á frönsku. Þegar ég skildi ekki hvað hún meinti sagði hún það sama aftur bara hærra og með meiri pirringstón, eins og það myndi hjálpa mér að skilja. En svo var einhver asísk kona við hliðina á mér sem benti mér á stað til að fara út. Ég var mjög þakklát þó svo að ég hafi reyndar farið út á öðrum stað.

Þegar ég svo komst í miðbæinn rölti ég um og var ekki mikið að kíkja á kortið svo ég eiginlega villtist en komst svo brátt aftur á rétta leið, þ.e.a.s. ég fann Signu. Gekk með fram Signu þangað til að nefið á mér varð blátt og ákvað þá að fá mér kaffi, Café au lai, eða þ.e.a.s. Café Latte.

Gekk meira og fékk mér að borða. Svo um sjö hálf átta þegar ég ætlaði að taka lestina til baka (var svolítið smeik að labba um Parísarborg í dimmu svona alein) þá var seinkun á lestinni og ég hélt það myndi líða yfir mig það var svo mikið af fólki að bíða eftir að sama lest færi af stað. Hún fór svo af stað um klukkutíma eftir áætlun. Hálftími af því fór í að bíða fyrir utan lestina í troðningi og reyna að ákveða hvort ég ætti að troða mér inn í meiri troðning inni í lestinni og annar hálftími í að kafna inn í troðfullri lest. En þetta hófst að lokum, reyndar fór um mig nokkur ónotatilfinning því að maður nokkur í lestinni gat ekki hætt að brosa til mín, svolítið skuggalegra en það hljómar....

Verð svo bara að bæta því við að Charles de Gaulle er einhver sá ömurlegasti flugvöllur sem ég hef farið á.....mæli ekki með honum. En annars bara ágætis dagur í París.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband