Elba

Þá er ég komin aftur heim frá Elbu. Smile

Ég fór síðasta fimmtudag með Söndru, Isabelle, Enrico, Livia og Irene. Irene er ein ítölsk stelpa sem er með einum erasmus í tíma, man ekki alveg hverjum.

elbaÁ miðvikudaginn fórum við Isabelle og Irene saman að kaupa tjald fyrir ferðina og varð fallegt fjögurra manna tjald fyrir valinu ásamt þriggja manna tjaldi sem Irene keypti sér. Ferðin hófst á fimmtudagsmorgun klukkan átta með lest til Livorno. Þar skiptum við um lest og fórum til Piombino þar sem við fórum með skipi til Elbu. Veðrið var heldur leiðinlegt en við vonuðumst til að sólin myndi láta sjá sig seinni partinn þegar við kæmust loks til Elbu. Nei nei þegar við stigum út úr rútunni, sem fór með okkur á tjaldstæðið á Elbu, byrjaði að rigna, og það ekkert smá, líkt og væri virkilega hellt úr fötu. Þegar stytti upp í smá tíma byrjuðum við að tjalda en eftir fimm mínútur byrjaði aftur að rigna og allt varð rennandi blautt og ógeðslegt. Ég tók alls ekki mikil föt með mér og allt sem ég tók með mér varð blautt. Ég hélt að þegar maður tjaldar á Ítalíu í byrjun júní þá ætti að vera sól! Þetta var verra en að tjalda á Íslandi hehe.  En allaveganna um níu leytið um kvöldið þegar við vorum búin að tjalda fórum við á pizzastað. Alveg að kálast út hungri eftir miklu lengra ferðalag en við bjuggumst við. Við litum líka öll rosalega vel út með blautt hárið og klædd í blaut föt. Mér var svo kalt að ég fór inn á baðherbergi til að hlýja mér við handþurrkarann.


 

 

 

 

 

Á föstudeginum vöknuðum við öll heldur stúrin þar sem lítið var um svefn um nóttina. Það rigndi og rigndi og hávaðinn af rokinu var óþolandi. Við höfðum líka tjaldað í svo miklum flýti að stærðarinnar steinn varð undir plássinu hennar Isabelle svo hún var ekki mjög ánægð. En á laugardeginum lét sólin sem betur fer sýna sig. Um morguninn var himininn heiðskír en við ákváðum að byrja daginn með því að skoða m.a. Porto Azzurro (við gistum í Marina di Campo). Planið var að fara síðan seinni partinn á ströndina og sleikja sólina. En seinni partinn dró fyrir sólu og við blótuðum því að hafa ekki byrjað daginn á ströndinni í stað fyrir rútuferð. Um þetta leyti var eitt mosqiuto bit bak við hnéið mitt heldur betur farið að láta á sér kræla og löppin á mér bólgnaði svo mikið að ég átti í erfiðleikum með að ganga. Ég fór því í apótek með Liviu og fékk eitthvað við því.  

Um kvöldið fórum við aftur á sama pizzaastaðinn (ekki mikið um að velja á þeim stað sem við vorum) og fengum okkur pizzu sem við borðuðum á ströndinni. Mórallinn hjá öllum um daginn hafði verið upp og ofan en eftir smá pizzu og bjór vorum við öll að koma til. Ég, Isabelle og Sandra stóðum saman í hring á ströndinni og vorum að tala saman og grínast. Svo allt í einu segir einhver e-ð fyndið svo að Sandra byrjar að hlægja. Hún slengir hausnum svona niður eins og maður gerir stundum þegar maður hlær, en það vildi svo illa til að hún lendir akkurat með munninn á bjórflöskunni sem ég var með í hendinni. Flaskan titraði en greyðið Sandra braut í sér tönn. Eftir þetta var gamanið eiginlega búið og við héldum aftur heim á tjaldstæðið staðráðin í því að eyða morgundeginum í afslöppun á fallegri strönd.
Ströndin sem við fórum á
laugardeginum heitir Biodola og var sagt að hún væri rosalega falleg svo við ákváðum að taka rútuna þangað um morguninn. Livia hélt þó ein heim á leið til Genova. Rútan fór með okkur til Procchio og sagði rútubílstjórinn að ströndin væri mjög stutt frá, rétt handan við hlíðina. Við byrjuðum því að ganga, og ganga, og ganga og ganga þangað til að við vissum varla hvar við vorum. Þessi hlíð var rosa brött og ég myndi meira kalla þetta fjall svona eftir á. Irene gekk svo hægt að við þurftum endalaust að vera að stoppa, hún talaði líka stanslaust allan tíman svo að ég, og fleiri, var að verða geðveik. Það vall og vall út úr þessu ógeðisbiti við hnéið á mér og sólin var svo heit og ég óskaði þess heitt að við myndum brátt finna ströndina. Sandra átti í erfiðleikum með að drekka vegna verk í tönninni og Isabelle með verk í baki eftir nóttina svo ég get ekki sagt að þessi göngutúr hafi verið svakalega skemmtilegur en eftir um þrjá tíma komumst við loks á áfangastað. Úff já þrjá tíma, alveg fáránlegt. Komumst um að verða tvö á ströndina og það var alveg satt að þessi strönd er rosalega falleg. Við gátum loks slappað af og farið í sólbað. Fórum einnig í smá boltaleik í hafinu og fengum okkur öl á strandbarnum. Allir voru í rosa góðu skapi þar til að við fengum skilaboð um það að lestir og rútur yrðu í verkfalli á sunnudeginum.

Sandra komst sérstaklega í uppnám þar sem hún átti að fara í próf á þriðjudeginum og planið var að leggja snemma af stað á sunnudeginum til þess að hún gæti byrjað að læra. Við reyndum því að komast að því hvernig við gætum komist heim og spurðum um leið hvaða strætó við gætum tekið frá Biodola, þar sem við vorum, til Marina di Campo og komust að því að það eru engir strætóar sem ganga að Biodola fyrr en fyrsta júlí. Við þurfum því að ganga aftur heillanga leið til þess að geta tekið strætó til baka jibbíjei. Sem sagt rosa mikil ganga þann daginn. Um kvöldið komust við að því að hægt væri að taka eina lest sem færi um kvöldið á sunnudeginum, þessi lest kostaði samt meira en venjulega, gaman, gaman.
Á sunnudeginum lékum við okkur smá með bolta á meðan Sandra reyndi að læra. Svo hófum við ferðina heim á leið seinni partinn.
Ég varð líka heldur svekkt að komast ekki fyrr heim þar sem ég var búin að plana að fara á tónleika með fullt af hljómsveitum frá Genova um kvöldið en svona er víst lífið.  
Komust heim, nokkuð þreytt, klukkan að ganga tólf í gærkvöldi og í dag er ég búin að eyða stórum hluta dagsins í að þrífa allt eftir ferðina þar sem rigningin gerði þar að verkum að allt varð frekar skítugt.
          Elba er rosalega falleg eyja, mjög græn og stendurnar eru æðislegar með bláu hafi og hvítum sandi. Ég get samt ekki sagt að ferðið hafi verið frábær en ég held að þetta sé ein af þeim ferðum sem er mun skemmtilegra að rifja upp seinna hehe.

 


Fyrsta prófið búið :)

Jei jei þá er ég búin í fyrsta prófinu og gekk bara svona helv... vel.

Þetta próf var í Storia dell’Arte Moderna, eða listasögu og ég var búin að stressa mig svo mikið að ég var næstum orðin sköllótt. Kennarinn er ekkert rosalega næs, rosa ströng og ég var viss um að hún myndi bara spyrja mig tíkarlegra spurninga. En viti menn, ég þurfti ekki einu sinni að taka prófið hjá henni. Í dag var nefnilega fyrsti dagurinn til að taka þetta próf og það voru alveg rosalega mikið af nemedum svo að hún var með aðstoðarkennara með sér. Og ég fékk að tala við hana. Hún er miklu yngri, mikið indælli og spurði mig ekki einnar tíkarlegrar spurningar.  

Þetta er svaka fyndið system hérna, ég hef aldrei séð annað eins. Allir eru inni í stofunni að tala saman og svona og svo fer einn og einn upp til að tala við kennarann í svona 10 til 30 mínútur, fer eftir því hve vel gengur, og allir sem bíða geta bara alveg hlustað. Ég var rosalega stressuð líka út af því. Ekkert auðvelt að þurfa að babbla um e-ð á ítölsku og svara spurningum með hundrað manns að hlusta. En sem betur fer þá voru ekkert rosa margir í stofunni þegar ég fór að taka prófið svo það var léttir. En samt hættu allir, sem voru inni í stofunni, að tala og fóru að hlusta á mig taka prófið þegar þeir heyrðu að ég væri erasmusnemi, örugglega bara brandari fyrir þau að hlusta hehe.  Kennarinn spurði mig hvað ég hefði lesið og svo byrjaði ég bara að babbla e-ð um endurreisnatímann á Ítalíu og einhverja ítalska listamenn. Svo spurði hún mig bara mjög auðveldra spurninga, sagði mér að nefna listmálara, því ég hafði mest bara talað um einhverja arkitekta, svo ég fór bara að tala um Leonardo da Vinci, mjög þæginlegt þar sem það er alveg fullt hægt að segja um hann. Eftir á spurði hún mig hvort ég væri sátt við 28 stig af 30 mögulegum og ég tók því bara fegin. Eins og ég segi, mjög fyndið system hérna og rosalega gaman að kynnast þessu, svona eftirá þegar ég sá að prófið drap mig ekki eins og ég hélt í byrjun hehe.  

Í kvöld er ég svo að fara að hitta vini mína því við þurfum að plana ferðina til Elbu, við erum nefnilega búin að ákveða að fara í svona milliprófa frí á fimmtudaginn vúbbídú. Vonandi skín sólin allan tímann á eyjunni, það er nefnilega búið að rigna svolítið hér, og þótt það sé mjög hlýtt þá má regnið alveg hvíla sig. Ég er líka búin að heyra að það sé búið að vera bongóblíða heima sem mér fannst ekkert rosa gaman að heyra í bleytunni hér á Ítalíu.... humm þetta hljómar eitthvað skringilega :p.Sjáumst og gleðilegt sumar.... þótt seint sé ehe. Kossar og knús

Læt nokkrar random myndir fylgja Smile

Picture 027Picture 023

Picture 012Picture 015


Komin aftur

Jæja þá er ég komin aftur frá Bologna.Smile

 

Við fórum sjö saman á laugardagsmorgun, ég, Sandra, Isabelle, Niko, Mikko, Jonas og Enrico. Ég vaknaði klukkan um korter yfir fjögur á laugardagsmorgun því að lestin til Bologna fór klukkan rétt fyrir sex. Kvöldið áður var afmælið hennar Nönu svo að ég fór ekkert rosalega snemma að sofa, svaf heila þrjá tíma. Ferðin til Bologna tók þrjá og hálfan tíma og vorum við því komin rétt fyrir klukkan tíu. Eftir að hafa hent dótinu inn á hostelið fórum við að skoða okkur um í Bologna.

Picture 025

 

Fyrst fórum við að skoða turnana tvo sem eru á Piazza di Porta Ravegnana. Turnarnir eru eins konar tákn fyrir Bologna frá miðöldum. Við ákváðum að fara upp annan turnin og völdum þann hærri að sjálfsögðu, sá er 97 metra hár með 498 þrep. Stigarnir voru alveg rosalega grannir og ég var svolítið lofthrædd, sérstaklega þegar ég þurfti að labba niður því þá þurfti ég að horfa niður. Þrepin virtust endalaus en að lokum komumst við á toppinn og útsýnið var alveg æðislegt!

Picture 053

 Picture 064Picture 075

Eftir þessa góðu líkamsrækt ákváðum við að fara í almenningsgarð með bjór og slappa af. Eftir aðeins einn bjór á mann virtust allir vera nokkuð hífaðir sem er kannski ekki skrítið þar sem lítið var um svefn nóttina áður. Um kvöldið fórum við öll saman út að borða og samræðurnar við matarborðið voru vægast sagt skrautlegar. Allir pöntuðu sér Spaghetti Bolognese því að: when in Rome right....hehe. Svo eftir matinn fórum settumst við úti á torg og drukkum bjór, svaka kósí. Fórum svo á mjög skemmtilegan írskan pöbb, þar var alveg fullt af fólki. Það eru svakalega margir stúdentar í Bologna, virðist vera miklu fleiri en í Genova og við byrjuðum að ræða það hvort við hefðum ef til vill valið vitlausa erasmusborg hummhumm. Eftir írska pöbbinn fórum við á annan skemmtistað þar sem við dönsuðum og dönsuðum til klukkan fjögur um nóttina. Veit ekki alveg á hvaða orku en ég lærði þessa nótt að það er mögulegt að dansa nánast sofandi hehe.

Hostelið sem við gistum á var frekar ódýrt og þess vegna er það eflaust lokað á milli tvö til sex á næturnar. Við þurftum því að bíða fyrir utan hostelið í rúman klukkutíma til þess að komast inn að sofa, og vá hvað við vorum þreytt. Enginn gat sagt neitt gáfulegt en það gerði biðina líka skemmtilegri. Þetta kvöld var rosalega skemmtilegt, ég hef sjaldan hlegið jafn mikið! Á sunnudeginum vöknuðum við um hálf tólf og tókum lest til Ferrara, borg nærri Bologna. Ferrara er rosa sæt borg þar sem allir eru á hjólum.Picture 088Picture 117

Um kvöldið fengum við okkur bjór saman á enskum pöbb og fundum upp nýtt tungumál frá Genítalíu sem við töluðum allt kvöldið. Kannski er eins gott að við séum að læra í Genova því við höfum ef til vill hljómað svolítið asnalega hehe.Á mánudeginum skoðuðum við Bologna aðeins meira og meðal annars elsta háskóla Evrópu sem er staðsettur þar. Í háskólanum fann ég meira að segja til sýnis íslenska bók.

Alla ferðina vorum við rosalega heppin með veður, það var sól allan tímann. Síðan þegar við komum aftur heim til Genova var rigning!! En veðrið er að batna núna, mér sýnist sólin vera að sýna sig. Í kvöld ætlum við að kíkja í bíó og núna verð ég að fara að hafa mig til því fyrir bíóið ætlum við að hittast og fá okkur smá apperitivo. :P Vona að allt sé gott að frétta frá klakanum knúsknús.

P.s. gleymdi að nefna það að ég þarf víst að fá mér enn á ný nýtt debitkort, því á föstudeginum fór ég í hraðbanka og bankinn hreinlega át kortið mitt. Ég setti kortið inn og svo stóð, vinsamlegast bíðið. Svo ég beið, og beið og beið, þangað til að allt í einu birtist á skjánum: því miður þá er þessi hraðbanki nú bilaður!! Ég reyndi að ýta á cancel en ekkert gerðist og kortið inn í helv... bankanum. En jæja ég ákvað bara að halda ró minni og fara eftir helgina að ná í kortið. Svo fór ég í dag í bankann en viti menn, bankinn ákvað bara að senda kortið mitt til Íslands, úff! Svo ég þarf að fá enn nýtt kort sent hingað til Ítalíu. Ég veit ekki alveg hvað þetta er með mig en ég virðist vera svolítið óheppin með kortin mín hérna úti, vonandi er þetta síðasta vesenið. Góðar stundir :p.


Jæja best að vera dugleg núna í skólanum! :)

Jæja þá er ég loksins byrjuð að læra. Ég hef frestað því að byrja allt of lengi. Í dag er ég búin að lesa alveg fullt í ítölskum bókmenntum og er ekki enn búin. Ætla að halda áfram um leið að ég er búin að blogga smá. Það má nú alveg taka bloggpásu er það ekki. Wink 

Ég veit ekki hvernig ég ætla að ná prófunum í vor/sumar en ég ætla nú samt að reyna mitt besta. Ég fer í þrjú próf og þau eru öll munnleg. Ég er rosalega stessuð því að ég er alls ekki vön því að taka munnleg próf og hvað þá á öðru tungumáli. Ég ætla bara að vona að þessi próf fari betur heldur en síðasta munnlega próf sem ég man eftir að hafa farið í. Það var í stærðfræði í MR. Það er dagur sem er best gleymdur held ég. Ég var svo stressuð að ég hélt að það myndi líða yfir mig, svo mundi ég bara alls ekki neitt og stóð þarna bara eins og einhver auli sem væri að villast inn í vitlausa skólastofu.Blush En ég er núna eldri og klárari, vona ég hehe. Nei nei ég er viss um að í þetta skipti gangi þetta betur, hver veit nema ég sé bara natural talent í munnlegum prófum á ítölsku.            

Í gær fór ég smá út á lífið með vinum mínum hér. Ég bauð nokkrum fyrst heim til mín í smá bjór, snakk og ávexti. Mér var reyndar sagt þegar ég flutti inn að eina reglan væri að ég mætti ekki halda partý en þetta var nú bara smá smá, engin heví læti eða neitt svo það hlýtur að vera í lagi. Stelpan sem býr með mér er mjög sjaldan heima um helgar og ég reyndar hitti hana ekki mjög oft ef ég verð að segja eins og er. Stundum þegar ég kem heim og hún er heima þá bregður mér því það er oftast eins og ég búi hérna ein hehe. En já það var alveg ágætiskvöld í gær bara. Við fórum á stað sem heitir Moretti, eins og bjórinn ítalski. Frekar subbulegur staður en gaman að dansa þar. Tónlistin sem er spiluð er pínu svona suður amerísk svo það er eins og maður sé komin til Kúbu eða eitthvað. Allir í svaka stuði.W00t

Picture 008Næstu helgi eru tónleikar með The Wombats í Flórens og mig langar alveg rosa mikið að fara. The Wombats eru t.d. með lagið Let’s dance to Joy division, fyrir þá sem vilja vita. En ég veit ekki hvort ég fari, enn svolítið óákveðið. Svo helgina 25.-27. apríl fer ég til Bologna, Ferrara og Ravenna með Erasmus félaginu hér í Genova. Ég get ekki beðið, held að það verði rosa gaman.            

Í gær var síðasti dagurinn í ítölsku tímunum og við gáfum kennaranum blóm og kort til þess að þakka fyrir okkur. Picture 002Kennarinn er mjög indæl ung kona. Hún var svo hrærð þegar við gáfum henni þetta að hún fór næstum því að gráta. Algjör dúlla. Sagði endalaust að við værum svo skemmtilegur bekkur og svo eftir tímann bauð hún okkur öllum upp á Aperitivo.          

Picture 003Picture 004

 

  

En jæja já best að halda áfram að læra, heyri líka að þvottavélin er búin svo ég verð að fara að hengja upp. Vonandi áttuð þið öll góða helgi og ég óska ykkur öllum góðrar viku og til hamingju með afmælið Krúsa!Smile

 


Sikiley

Gleðilega páska elskurnar mínar!

Jæja þá er ég komin aftur heim til Genova eftir frábæra viku á Sikiley.

Anika og Öddi komu að heimsækja mig 15. mars á laugardegi. Ég og Andreina tókum á móti þeim á flugvellinum. Ég sýndi hjónaleysunum borgina eins og heimamanni sæmir og við áttum alveg ágætis tíma hér á norður Ítalíu.Picture 038

 

 

 

 

Á sunnudeginum ætluðum við að kíkja á fótboltaleik og það var nú meira en að segja það. Liðin sem kepptu voru Catania og Sampdoria sem er í Genova (skiptir mig alveg rosalega miklu máli hehe). En anywho þegar við komum á völlinn var okkur sagt að fara til höfuðstöðva Sampdoria til að kaupa miða því það er ekki hægt á völlinum....úff pínu vesen en okei, that's Italy. Tókum leigubíl til baka til þess að kaupa miða en þar komst ég að því að til þess að kaupa miða þarf að hafa vegabréf meðferðis sem ég hafði ekki. En Jjæja tuttugu mínútur í leik og ég dríf mig heim með leigubílnum til þess að ná í vegabréfið. Leigubílsstjórinn keyrði alveg á milljón og fyrr en varði vorum við á leiðinni aftur til baka með vegabréfið og allt í gúddí. Á leiðinni byrjar svo leigubílsstjórinn að tjatta við mig og spyr svona hvað ég sé að gera hér í Genova, hvað ég sé að læra og svona og ég hugsa að þetta sé indælis kall bara. Making small talk og svona. En viti menn svo spyr hann mig; já hvað segirðu er mikið að gera í skólanum, hefurðu lítinn frítíma? og ég svara alveg glórulaus; ha nei nei ég hef alveg fínan frítíma, er ekkert mikið í skólanum. Þá vill gaurinn bara bjóða mér á deit, og frekar ýtinn líka, úff og ég bara sagði ég held nú síður og var eiginlega frekar pirruð á þessu......ég meina við erum að tala um svona sextugan kall, ekki beint mín týpa hehe. En eftir þetta hætti ég að tala við hann og loks komust við aftur að miðasölunni þar sem Anika og Öddi biðu. En þá hafði víst miðavélin bilast og ekki hægt að kaupa miða. Þannig að við komust ekki á leikinn eftir allt saman, frekar leitt þar sem við vorum búin að ferðast út um allan bæ og orðin frekar spennt fyrir leiknum. En svona er þetta, vði greinilega áttum ekki að komast á þennan leik.Picture 041

            En allaveganna eftir smá tíma í Genova eyddum við viku á Sikiley og það var alveg frábært. Sikiley er rosalega falleg en svolítið ólík meginlandinu finnst mér. Minnti mig svolítið á grísku eyjarnar nema að á Sikiley er aðeins meiri gróður og ekki eins hvít hús. Í Catania, þar sem við gistum, virða menn sko alls ekki umferðareglurnar. Menn keyra bara eins og þeim sýnist. Rautt ljós skiptir engu máli og grænt ljós gefur þar af leiðandi mjög falskt öryggi. Öddi er algjör hetja að geta keyrt þarna um og án þess að lenda í árekstri. Allir bílarnir eru klesstir þarna og ekki skrítið þar sem á einni akgrein keyra bílar í þrem röðum og hver ofan í öðrum hehe.Picture 089

Auk Catania skoðuðum við Ragusa, Modica, þar sem við smökkuðum Modicískt súkkulaði sem er brætt við svo lítinn hita að sykurinn leysist ekki upp þannig að maður bryður sykurinn við að éta súkkulaðið (ekki gott). Við skoðuðum líka Noto, Enna, Taormina þar sem var svakalega flott útsýni, Siracusa og fleira. Við vorum líka heppin með veður. Mjög þæginlegt hitastig til að ferðast í. Það var rosalega gaman að sjá eyjuna og ég mæli með því að þið kíkjið einhvern daginn.

En já sem sagt núna er ég komin aftur heim til Genova og ætla að vera dugleg í skólanum, og félagslífinu að sjálfsögðu hehe ;). Svo læt fylgja með nokkrar myndir frá ferðinni.Picture 388

RÆND eftir einn mánuð á Ítalíu!!

Ég trúi ekki enn að ég hafi verið rænd en það er víst svo.Picture 55

Síðasta miðvikudag var veskinu mínu stolið og í því var debit kortið mitt, kredit kortið, ökuskírteinið, háskólaskírteinið, erasmus skírteinið og um 30.000 krónur sem ég var nýbúin að taka út úr hraðbanka.  Um morguninn þegar ég vaknaði var ég frekar slöpp og það tók mig um korter að peppa mig upp í að fara í skólann. Ég átti tíma í Listasögu. Í tímanum var ég endalaust að hósta og snýta mér svo ég ákvað að fara pínu fyrr úr tímanum. Ég ætlaði að drífa mig heim að leggja mig áður en næsti tími myndi byrja.

Þegar ég kom út úr tímanum mundi ég eftir því að ég þurfti að fara í hraðbanka og taka út pening fyrir leigunni. Ég hafði tekið bæði kortin með mér til þess að vera viss um að geta tekið nóg út úr hraðbankanum. Vanalega er ég ekki með bæði kortin á mér. Þegar ég var nýbúin að taka peninginn út og var á leið í metroið til að komast heim þá hringir síminn. Ég stóð þarna eitthvað að vesenast með veskið mitt, símann og bakpokann svo ég set veskið í bakpokann. Síðan finn ég allt í einu eitthvað og kíki aftur á bakpokann. Hann er þá bara galopinn og veskið horfið!!! Einhver aumingi búinn að stela veskinu mínu!! Það fyrsta sem ég hugsaði var að loka kortunum mínum svo ég ætlaði að hringja í einhvern til að hjálpa mér en mundi þá eftir að ég var ekki með neina inneign á símanum. Þá hugsaði ég: ok, best að kaupa inneign, en nei úps enginn peningur......Þá var ég bara alveg....shiiiiiitttt... ég verð að drífa mig heim á netið til að ná í einhvern.  

Ég dreif mig með metro heim, kveikti á tölvunni í flýti og vonaðist til að einhver væri online til að hjálpa mér. Sem betur fer var Ingunn á msn og hún hringdi í Ödda fyrir mig sem hringdi svo strax í mig. Þegar ég byrjaði að tala við Ödda brotnaði ég alveg bara niður og fór að háskæla. En Öddi er svo klár og hann hjálpaði mér ekkert smá mikið. Hann bara reddaði öllu fyrir mig. Hringdi í bankann minn og lét loka kortunum og pantaði ný kort í leiðinni. Ég veit bara ekki hvað ég hefði gert ef hann hefði ekki hjálpað mér svona.....takk Öddi :).

Ég fór svo að tala við lögguna sem skrifaði skýrslu um atvikið, fór langur tími í að skrifa nafnið mitt og að tala um nafnið á bankanum mínum, Kaupthing, hehe. Löggan sagði mér að í 80% tilvika þá finnst veskið aftur með kortunum (en engum pening of course) og þeir ætla að hringja ef veskið mitt finnst, sem ég vona. Þessir lúða dópistar taka víst oftast bara peninginn og láta kortin í friði. Svaka “heppilegt” að ég var nýbúin að taka út leigupening :( . 

En fyrir utan smá uppnám og reiði í garð þessa steliþjófa þá líður mér bara ágætlega og

shit happens........but I won’t let it happen again!!! Ehehe

 

Ætla svo smá út að skemmta mér í kvöld og hætta að hugsa um þennan óhappa miðvikudag.  

Bara rétt rúm vika þangað til Anika og Öddi koma í heimsókn, get ekki beðið. Hlakka til að sjá ykkur.

 

Læt svo nokkrar myndir fylgja.....Picture 069

 Picture 057Picture 071


Oh svo menningarleg :p

Hæ hæ. Mikið rosalega er ég menningarleg, ég bara verð að skrifa svolítið um það.

Á föstudagskvöldið fór ég í bíó, okei kannski ekkert rosalega menningarlegt nema að þetta var sko ítölsk rómantísk mynd sem heitir Parlami d'amore eða talaðu við mig um ástina. Alveg ágætis ræma svo sem og ég skildi allt sem þurfti að skilja, enda ekki svo flókið að skilja rómantískar myndir hehe.

Þegar myndin var búin fórum við á bar sem er við höfnina eins og svo oft áður. Við hlógum mjög mikið og höfðum pínu hátt.  Allt í einu kemur einn þjónninn með blað sem er kurlað saman. Þegar við opnum blaðið stendur á ítölsku, "þið eruð frábærar, frá þjónunum." Hehe. Við vildum skrifa til baka smá þakkir en það tók sinn tíma. Ég held að það hafi tekið um hálftíma til fjörtíu mínútur að skrifa "takk, sömuleiðis, frá frábæru stelpunum" haha.  Það voru fullt af rifum í blaðinu vegna þess að við hættum svo oft við að skrifa eitthvað og við vorum ekki með strokleður hehe. Sex stelpur og allar frá sitthvoru landinu að ákveða saman eitt svar á ítölsku úff úff.....

Svo á laugardaginn var erasmus partý á Palazza Ducale í miðbænum. Fór seint að sofa og var því pínu þreytt daginn eftir þegar ég fór á annan menningarlegan atburð. 

Þessi mennigarlegi atburður var ballet/danssýning. Passion hét sýningin og var eiginlega svona nútíma dans um alls konar ástríðu og líka um Jesú Krist ef ég náði þessu rétt. Rosalega gátu dansararnir dansað, alveg svaka flott. Í fyrsta skipti sem ég hef séð svona sýningu og varð ekki fyrir vonbrigðum. Hér fyrir neðan má sjá sýninshorn.

Passion

 

 

 

momix

 

 
Annað kvöld er svo þriðji menningarlegi atburðurinn en þá fer ég með erasmusum í leikhús, jibbí. Allt á ítölsku og hef ekki hugmynd um hvað leikritið er en vona að það verði gaman.

Svo eins og þig sjáið þá er ég ekki aðeins að djamma heldur einnig að virkja mína menningarlegu hlið hehe. Þið getið svo kíkt á smá myndir frá helginni.

 

 


Vikan sem er að líða.

9Á mánudaginn fór ég í minn fyrsta tíma í háskólanum hér í Genova. Fagið var Psicologia dell'Apprendimento, sálfræði náms eða e-ð svoleiðis. Ég var pínu stressuð fyrir tímann en þetta gekk alveg ágætlega. Reyndar skildi ég eiginlega ekki neitt en gerði mitt besta að reyna að fylgjast með og glósa. Hinir nemedurnir hafa  örugglega haldið að ég væri rosa proffi hehe. Verst að ég skildi ekki alveg allt sem ég var að skrifa. Ég er ekki alveg viss hvort ég vilji halda áfram í þessu námskeiði en ég sé til.

Á þriðjudaginn fór ég í fyrsta tímann í Storia dell'arte Moderna, listaögu, og sá tími gekk mun betur og ég held að þetta fag geti verið mjög skemmtilegt.

Í gær fór ég svo á skauta í fyrsta skipti í langan tíma. Það var skipulagt af Gruppo Erasmus Genova en ég er meðlimur í þeim hópi, er meira að segja með kort með mynd og allt hehe. Það var mjög skemmtilegt og mér er sönn ánægja að segja að ég datt ekki einu sinni einu sinni :p. Eftir skautana fengum við okkur heitt kakó með rjóma. 

 

 Í dag fór ég með Andreinu í smá leiðangur. Fyrst fórum við í Vodafone búðina í Sestri (rétt hjá Multedo) til þess að athuga með svokallaðan Vodafone key eða internet key. Með þessum usb lykli er víst hægt að fara á internetið hvar sem er. Þetta gæti verið mjög sniðugt fyrir mig þar sem það er ekki internet tenging í íbúðinni sem ég flyt í.  Ég ætla samt að hugsa málið og sjá hvort það borgi sig, best að spyrja Riccardo eins og Andreina sagði :).

Ég og Andreina fórum einnig að fá okkur Aperitivi í Sestri. Við sátum úti því í dag var rosa gott veður, sól og allt. Eftir aperitivo lá leiðin í Ikea. Það var alveg eins og að vera komin aftur heim til Íslands, ekki mikill munur á ikeabúðunum hehe. Ég keypti mér lak, kerti og inniskó :).

Á morgun ætlum við, erasmusar, að skella okkur í bíó á einhverja ítalska bíómynd og á laugardaginn er svo erasmus partý jibbí. 

Læt nokkrar myndir frá skauta-ævintýrinu fylgja.

Góða helgi :).

72

 

 

6

 

          8


Nervi

Í gær fór ég með Söndru (frá Sviss) og Viki (frá Kanada) til Nervi. Nervi er lítill bær rétt hjá Genova. Ég vaknaði klukkan um hálf níu til þess að ná því að taka strætó niður í bæ og hitta stelpurnar klukkan 11. Ég varð pínu pirruð þegar ég var að bíða eftir strætó því einhver svona krípí krípí gamall kall starði á mig. Ég þoli ekki þegar fólk bara starir og svo hættir það ekki einu sinni þegar maður horfir á það til baka. Mér finnst það svo dónalegt og auðvitað rosa óþæginlegt. En allaveganna þegar ég kom í miðbæ Genova var ég að frjósa, það var alveg ógeðslega kalt. Kaldara en það hefur nokkurn tímann verið síðan ég kom hingað. Ég gleymdi húfunni minni heima svo að ég meira að segja keypti mér ódýra húfu áður en vil héldum af stað til Nervi. (Ég held að þessi húfa myndi gera Ödda stoltan hehe)

Ég Sandra og Viki tókum svo stætó saman til Nervi og það tók um 25 mínútur. Nervi er rosa sætur og rólegur bær með mjög vinsamlegu fólki, reyndar finnst mér Ítalir yfir höfuð vera vinsamlegt fólk.

Þið getið séð hér að neðan hvar Nervi er, til hægri við Genova við sjóinn. Multedo er hinum megin á milli Sestri og Pegli. (Stendur ekki á kortinu). 

Í Nervi var svo miklu betra veður,  ekkert smá skrítið. Bara rétt hjá Genova og miklu hlýrra. Við gengum gangstíg við sjóinn og kíktum í einhvern almenningsgarð, mjög fínt. Síðan tók við um 30 mínútna leit að veitingastað. Loksins settumst við úti á veitingastað við hafið. Það var svo hlýtt að sitja þar úti að það var eins og um sumar, alveg æðislegt! Ég var þarna bara á bolnum að borða ís í sólskini og furðaði mig á því að aðeins um þrem tímum áður hafði ég keypt mér húfu því mér var svo kalt. Alveg fáránlegt hehe.

Síðan þegar við komum aftur í bæinn, til Genova, bjargaði húfan mér aftur því þar var vetur.  

Í gærkvöldi elduðum við þrjár svo saman heima hjá Viki. Það var mjög fínt. Í dag er ég kvefuð og ætla ekki út vegna þess að skólinn byrjar á morgun og ég verð að vera frísk fyrir skólann :p.

 


Búin að finna íbúð :p

Hæ hó ég er búin að finna íbúð jibbí jei, eða það er að segja herbergi í íbúð.

Íbúðin er í götu sem heitir Via Pagano Doria og er númer 5, gott að vita ef þið ákveðið að kíkja í kaffi. :p Ég flyt inn 1. mars og verð þá hjá Andreinu þangað til, hún er svo góð að leyfa mér að vera. Stelpan sem býr í íbúðinni er rosa almennileg. Mér finnst líka gott að búa ekki í troðfullu húsi. Ein stelpa býr með sex öðrum stúdentum og þau þurfa öll að nota eitt baðherbergi, það er svolítið þröngt finnst mér. Íbúðin mín er hreinleg og hitunin í húsinu á víst að vera betri en gengur og gerist. Það er stór plús þar sem það er eiginlega alltaf kalt í húsunum hérna á veturna. Eini gallinn við íbúðina er sá að það er ekki internet :/ en ég verð þá bara að fara á internetið í skólanum og á svona internet kaffihúsum, það hlýtur að vera nóg.

Ég byrjaði í ítölskutímum á þriðjudaginn og er búin að fara í tvo tíma. Tímarnir verða alla þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga frá 16-18. Ég tók svona stöðupróf og lenti í hópi tvö af þrem hópum. Ég er með Pegli strákunum í tíma og fullt af fólki frá Portúgal og Frakklandi. Kennarinn er ung kona og hún er alltaf að sussa á okkur, ég held að hún sé vön því að kenna litlum krökkum hehe. En hún er mjög indæl og er alltaf brosandi, þegar hún er ekki sussandi. Enn sem komið er eru tímarnir frekar auðveldir en ég vona að þeir eigi eftir að þyngjast svo ég læri meira, oh ég er svo námsfús hehe;).

Bæði í gær og á þriðjudaginn fórum við eftir ítölskutímann á kaffihús saman, erasmusarnir, og ég elska svona aperitivo! Þetta er svo sniðugt, maður bara kaupir sér einn drykk (bjórinn hefur hingað til verið vinsælastur) og svo borðar maður frítt. Á sumum stöðum er meira að segja svona hlaðborð, alveg frítt. Reyndar er bjórinn á þessum hlaðborðsstöðum svolítið dýrari en annars staðar en þá fyllir maður bara diskinn ;). Þá þarf ekkert að elda (ekki að það hafi verið vandamál hingað til hjá mér þar sem það er alltaf kvölmatur heima í Multedo). 

Um helgina kíki ég kannski eitthvað út fyrir bæinn með Söndru og fleirum. Ágætt að nýta tímann áður en skólinn byrjar.

Ég held að ég byrji í tímum á mánudaginn, en ég er enn að reyna að læra á kerfið hérna. Mér skilst að maður fari bara í þá tíma sem maður vill og svo verður maður bara að passa sig á að skrá sig í rétt próf. Ég er nokkuð viss núna hvaða fög ég vil taka en svo verð ég bara að sjá hvernig gengur að læra á ítölsku. Einn franskur gaur benti mér á að taka ensku, eitt svona létt fag, bara til þess að fá meiri einingar. Hann ætlar að gera það þó svo að það sem hann er að læra komi því eiginlega ekki við svo kannski ég geri það bara líka, hver veit. 

Annars er allt gott að frétta héðan frá ítalíu, veðrið er búið að vera mjög fínt. Það er alltaf sól en svolítill vindur.  Jæja verð að fara að læra fyrir ítölskutímann á morgun. 

Læt fylgja með mynd af mér og Kristófer sem var tekin rétt áður en ég fór út. :)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband